Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Aðferðir til að draga úr streitu

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Streita er viðbrögð fólks við áreiti og álagi. Oft á tíðum finnur fólk fyrir vægri streitu þegar það stendur frammi fyrir verkefnum daglegs lífs án þess að það geri okkur illt. Streitan má hins vegar ekki verða svo mikil að hún trufli lífsgæði, hafi áhrif á svefn, ýti undir kvíða, vöðvabólgu o.s.frv.

Það er því mikilvægt öllum að kunna leiðir til að halda streitu innan viðráðanlegra marka. Hér eru nokkur ráð sem geta gagnast vel í því sambandi.

Slökun

Læra árangursríkar aðferðir til að slaka á og nota þær reglulega. Hægt er að hlusta á slökunaræfingar auk þess sem ýmis smáforrit eru til með aðferðum til að koma ró á huga og líkama.

Til að ná góðri slökun þarf að æfa sig reglulega.

Hreyfing

Fara í göngutúr í hádeginu, skreppa í sund eftir vinnu, fara í tíma í ræktinni eða jafnvel skrá þig á námskeið.

Hreyfing er skilvirk leið til að fá útrás, losa um spennu og auka vellíðan. 

Samvera

Hitta vin yfir kaffibolla, leika við barnið þitt eða gæludýr. Horfa á mynd með fjölskyldunni eða fara á samverustund t.d. hjá kirkjunni. Góðar samverustundir með þeim sem þér líður vel með eru afslappandi og auka vellíðan.

Ráð til að draga úr einsemd.

Daglegar ánægjustundir

Passa að dagleg rútína innihaldi ekki aðeins skyldur og kröfur heldur einnig ánægjustundir. Það þarf ekki að vera tímafrekt, dýrt eða flókið að finna stundir til að njóta lífsins. Til dæmis að fara aðeins út og anda að sér fersku lofti, setjast á bekk og virða fyrir sér mannlífið, eiga náðuga stund með góðri bók, tónlist eða sjónvarpsþætti eða njóta þess að borða góðan mat í hádeginu.

Endurmat á viðhorfum

Stundum höfum við tamið okkur viðhorf, venjur og viðbrögð sem gera ekkert annað en að auka á streitu okkar. Óþolinmæði í umferðinni er gott dæmi. Við komumst ekki hraðar áleiðis þótt við séum uppspennt og pirruð við stýrið heldur erum við aðeins að rýra eigin lífsgæði. Taktu eftir því hvaða viðhorf, venjur og viðbrögð þú hefur sem eru þess virði að endurskoða. 

Gott er að gera greinarmun á því sem við stjórnum og því sem við höfum ekki stjórn á. Við höfum t.d. stjórn á því hvernig við lærum fyrir próf en ekki öðrum þáttum, eins og hvaða spurningar verða á prófinu eða hver endanleg útkoma verður. Hóflegt magn af æðruleysi er nauðsynlegt í lífinu.

Ef samskipti við einhvern valda okkur streitu er sömuleiðis gott að muna að við höfum aðeins stjórn á helmingi þeirrar jöfnu, það er framkomu okkar. Við höfum ekki stjórn á því hvað aðrir segja eða gera. Það er mikilvægt að geta sleppt taki á því sem er ekki í okkar höndum.

Ráðleggingar um góð samskipti.

Draga úr áreiti

Íhuga hvaða aðstæður eða áreiti valda þér streitu og velta fyrir þér hvort ekki megi fækka þeim. Hefurðu tök á að fara heim úr vinnu á öðrum tíma en háannatíma í umferðinni? Geturðu keypt í matinn í hádeginu þegar færri eru í búðinni? Ertu í miklum samskiptum við fólk sem tekur frá þér orku en gefur lítið í staðinn? 

Snjalltæki eru einnig lúmskir streituvaldar sem kalla á að við séum í sífelldri viðbragðsstöðu. Prófaðu að hafa snjalltækjalausar stundir heima þar sem þú ert laus við áreiti frá síma, tölvu og öðrum tækjum.

Núvitund

Lærða að lifa meira í núinu og vertu með hugann við það sem þú ert að gera hverju sinni. Þú getur ekki breytt því sem liðið er og framtíðin er ekki komin. Það eina sem við höfum til að vinna með er nútíðin, sem er yfirleitt mun viðráðanlegri ef ekki bætast vangaveltur um það sem er búið eða ókomið.

Hægt er að finna núvitundaræfingar af ýmsum toga á netinu, í smáforritum, bókum og námskeiðum. Á hinu íslenska HappAppi er auðvelt að kynnast núvitund með einföldum æfingum. 

Tíma- og verkefnastjórnun

Læra gagnlegar aðferðir við að skipuleggja vinnu og tíma. Það er góð venja að gera verkefnalista yfir það sem þarf að gera að morgni dags eða daginn áður. Þá hefurðu yfirsýn og getur tekist á við verkefnin á skipulagðan hátt.

Forgangsraða verkefnum þannig að það sem liggur mest á sé efst en það sem má bíða aftast - og taka aðeins eitt atriði fyrir í einu.

Gott er að brjóta stærri verkefni niður í einingar. Að skrifa skýrslu má til dæmis skipta í eftirfarandi liði:

  1. Taka saman gögn sem þarf að hafa við höndina
  2. Lesa yfir gögnin og rifja upp innihaldið
  3. Skrifa yfirlit yfir helstu kafla eða atriði sem þurfa að koma fram
  4. Skrifa hvern kafla, einn í einu
  5. Lesa yfir, fínpússa og leiðrétta málfar.

Ekki hugsa um næsta lið fyrr en sá fyrri er búinn. Þannig verður verkið mun viðráðanlegra.

Passa þig einnig á tímaþjófum eins og tölvupósti og samfélagsmiðlum. Best er að setja sér skýrar vinnulotur þar sem unnið er af krafti og einbeitingu í ákveðinn tíma en taka pásur inn á milli þar sem þú getur gert það sem þú vilt. Hægt er að finna ýmis smáforrit fyrir tímastjórnun sem vert er að prófa og finna hvað hentar þér best.

Fækka verkefnum

Stundum er ekki nóg að forgangsraða eða skipuleggja verkefni því það eru einfaldlega of margir boltar í loftinu í einu. Undir slíkum kringumstæðum er mikilvægt að átta sig á því að það þarf að fækka verkefnum eða fá aðstoð ef ástandið á að skána.

Leita eftir faglegri aðstoð

Ef streita er mikil eða langvarandi, ef þú býrð við aðstæður sem þér finnst erfitt að ráða við eða finnur fyrir kvíða, depurð eða vonleysi er mikilvægt að leita sér aðstoðar. Pantaðu tíma á heilsugæslunni og ræddu þessi mál við fagaðila.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Hvernig er staðan?
Hér er myndband sem skýrir áhrif tilfinninga á líðan og hvernig viðbrögð líkamans eru hjálpleg en geta líkað valdið okkur vanda. Núvitund getur hjálpað til að ná tökum á erfiðum tilfinningum. Á seinna myndbandinu er æfing í núvitund.
Kvíði - núvitund
Núvitundaræfing
OSZAR »